Ensemble Norðsól.
Ensemble Norðsól.

Orgelsumar í Hallgrímskirkju hófst sunnudaginn 7. júlí og mun standa til 25. ágúst. Þá verða tónleikar í Hallgrímskirkju á laugardögum klukkan 12 og á sunnudögum klukkan 17, að því er fram kemur í tilkynningu. Segir þar jafnframt að í dag klukkan 12 muni Ensemble Norðsól, sem sé tríó frá Kaupmannahöfn, leiða tónleikagesti í ferðalag um Norðurlöndin og að aðgangseyrir á tónleikana sé 2.700 krónur.

„Við heyrum þeirra eigin útsetningar á verkum, m.a. eftir Grieg, Sibelius, Nielsen og Alfvén. Förum inn í hljómfagran heim sem einkennist af ljósi og myrkri, og hin norræna melankólía fær að njóta sín.“ Ensemble Norðsól samanstendur af tónlistarkonunum Anne Kirstine Mathiesen organista, Svöfu Þórhallsdóttur söngkonu og Hönnu Englund sem leikur á selló.