Oscar Andreas Haug
Oscar Andreas Haug

Tríó píanóleikarans Benjamíns Gísla Einarssonar kemur fram ásamt trompetleikaranum Oscar Andreas Haug, sem kallaður er nýjasta trompetstjarna Noregs, á áttundu tónleikum sumarjazztónleikaraðar Jómfrúarinnar. Tónleikarnir eru haldnir í dag, laugardaginn 13. júlí. Með þeim Benjamín og Oscar koma fram Nico Moreaux sem leikur á kontrabassa og Einar Scheving á trommur. Benjamín og Oscar kynntust í tónlistarháskólanum í Þrándheimi haustið 2019. Síðan þá hafa þeir spilað saman í hinum ýmsu verkefnum og gefið út tvær plötur með hljómsveitinni Bliss Quintet sem hefur leikið um 40 tónleika víða um Noreg og Evrópu, að því er fram kemur í tilkynningu. Tónleikarnir fara fram á Jómfrúartorginu, milli kl. 15 og 17. Aðgangur er ókeypis.