Gísli Þorsteinsson fæddist 24. september 1943. Hann lést 22. júní 2024. Útför hans fór fram 8. júlí 2024.

Við systurnar vorum lengi vel einu barnabörn afa og ömmu. Sem þýddi aðeins eitt, að það var alvörudekur að fá þegar við mættum í heimsókn. Við slógum hendinni nú ekki á móti því og fengum okkar prinsessu meðferð í gistipartý hjá afa og ömmu.

Á hverjum sunnudegi voru bakaðar íslenskar pönnukökur en það var okkar uppáhald. Afi var nefnilega pönnukökumeistari. Ég held það hafi ekki runnið upp sá dagur að við vöknum heima hjá þeim og ekki var ilmur úr eldhúsinu. Ef það vantaði í uppskriftina þá var afi rokinn út í búð að redda málunum.

Það var alltaf gott að vera í ömmu og afa húsi, þau veittu okkur alltaf frelsi til að fíflast og leika, klæða okkur í búninga, föndra og baka.

...