Ég var að klára bókina James eftir Percival Everett og get hiklaust mælt með henni. Þetta er sagan af Stikkilsberja-Finni en sögð frá sjónarhóli Jims, þrælsins sem hann slæst í för með á flótta sínum að heiman. Þessi bók kom mér gjörsamlega á óvart og ég gat hreinlega ekki lagt hana frá mér. Langar helst að leggjast undir feld og horfa á hina frægu heimildarmyndaseríu Ken Burns um bandarísku borgarastyrjöldina (Civil War), allar ellefu og hálfu klukkustundirnar næst. Og lesa Kofa Tómasar frænda aftur.

Nýlega uppgötvaði ég hina írsku Claire Keegan og hef gleypt í mig mögnuðu smásögurnar sem hún er þekkt fyrir; Small Things Like These, Foster og So Late in the Day; Stories of Women and Men. Þegar ég kom við í fríhöfninni í Keflavík í maí síðastliðnum sá ég að það er búið að þýða a.m.k. Smámunir sem þessir sem og Fóstur á okkar ylhýra. Þessar hafa ratað í hendur ófárra vina minna sem tækifærisgjafir.

...