Kerfisbilun hjá tölvurisanum Microsoft olli margvíslegum vandræðum víða um heim í gær og er stór hluti þessa vandræðagangs sagður mega rekja til vírusvarnarforrits frá netöryggisfyrirtækinu CrowdStrike sem sendi frá sér gallaða uppfærslu í tölvukerfi Microsoft.

Áhrif þessa virðast þó ekki hafa orðið mikil hér á landi, utan þess að netbanki Landsbankans lá niðri um hríð. Í tilkynningu frá bankanum segir að truflanir hafi verið á ýmsum þjónustuþáttum bankans í fyrrinótt og í gærmorgun, með þeim afleiðingum að netbankinn lá niðri ásamt bankaappinu, ekki var hægt að nota hraðbanka og þjónusta takmörkuð í útibúum og þjónustuveri. Greiðslukort bankans hafi þó virkað.

...