— Morgunblaðið/Árni Sæberg

Auknar kröfur um tunnufjölda hafa reynst fyrirtækinu Hefestus mikil búbót en það sérhæfir sig í að gera tunnuskýli fyrir húsfélög og einstaklinga. Gabríel Kristinsson, eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir eftirspurn mikla og að gerð tunnuskýla taki mið af aðstæðum á hverjum stað. „Eftir að þriðja tunnan bættist við höfum við nánast eingöngu verið í þessu.“

Gabríel segir fyrirtækið hanna hvert skýli fyrir sig og þegar ljósmyndari Morgunblaðsins átti leið hjá voru Gabríel og samstarfsmaður hans að gera sérhannað tunnuskýli fyrir húsfélag í Reykjavík.

„Margir eru líka að bæta við steyptu skýlin eftir að aukatunna bættist við og þetta er góð lausn við þær aðstæður,“ segir Gabríel.