Sinnuleysi á leiðtogafundi Evrópuríkja

Í liðinni viku komu 45 leiðtogar Evrópuríkja saman til að ræða vanda álfunnar. Þeir hittust í Blenheim-höll á Englandi, glæstu ættaróðali Winstons Churchills, sem var vel til fundið í ljósi ófriðar í Evrópu og þess að víðar eru blikur á lofti.

Mönnum lærðist um síðir að taka mark á varnaðarorðum hans um alræðisöfl Evrópu og keyptu þann lærdóm dýru verði. En þeir lærðu og á þeim lærdómi Churchills um að lýðræðisríki yrðu að standa sameinuð gegn ágangi einræðisríkja var Atlantshafsbandalagið stofnað og í raun má segja að hugmyndin um „Vesturlönd“ sé á honum reist.

Úkraína á í langvinnu og hatrömmu stríði fyrir tilverurétti sínum, en fáum dylst að lyktir þess verða afdrifaríkar fyrir Evrópu alla. Ekki er því aðeins verið að rétta grönnum hjálparhönd, heldur verja menn einnig eigin hagsmuni, frið og frelsi.

...