Óvænt valdataka í utanríkisráðuneyti

Óvenjuleg yfirlýsing utanríkisráðherra á X (Twitter) sl. laugardag um leiðbeinandi álit Alþjóðadómstólsins þar sem Ísrael var sendur tónninn vakti athygli, enda fátítt að stórpólitískar yfirlýsingar í nafni Íslands séu gefnar þar.

Það kann að kalla á frekari skýringar, því utanríkisráðherra fjallar sárasjaldan um niðurstöður Alþjóðadómstólsins á X og aldrei nema þegar Ísraelsríki liggur undir ámæli.

Hálfu óvenjulegra er þó, að á mánudag staðhæfði upplýsingadeild ráðuneytisins að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefði alls ekki staðið að umræddri yfirlýsingu, heldur hefðu þetta verið „skilaboð“ frá sjálfu ráðuneytinu, eins og það sé eitthvað allt annað.

Hér virðist gæta einhvers stórkostlegs misskilnings um eðli stjórnsýslunnar.

...