Sigurður Kristinsson, gítarleikari og akstursíþróttamaður, lést á Landspítalanum við Hringbraut 22. júlí, 59 ára að aldri. Hann var fæddur 7. desember 1964 og ólst upp í Vestmannaeyjum fram að gosi en fluttist þá með fjölskyldu sinni til Eyrarbakka og seinna í Mosfellsbæ. Foreldrar Sigurðar voru Kristinn Karlsson og Bryndís Sigurðardóttir. Systur hans eru Harpa og Arna Dís.

Sigurður var einn af fyrstu félögum Sniglanna og bar Sniglanúmerið #55. Hann var stofnfélagi í hljómsveitinni Sniglabandinu og lék þar fyrst á trommur en síðar á gítar. Hann sinnti tónlist á margvíslegan hátt, m.a. sem upptökumaður og upptökustjóri auk þess að annast undirleik hjá fjölda listamanna. Hann gaf út tvær sólóplötur. Sigurður var einnig atkvæðamikill í ýmiss konar akstursíþróttum og keppti meðal annars í rallýkrossi og akstri RC-bíla. Hann menntaði sig í kerfisfræði og starfaði í nokkur ár að tölvutækni.

...