Þórður Karl Halldórsson fæddist á Breiðabólstað, Fellsströnd, Dalasýslu 27. nóvember 1960. Hann lést 12. júlí 2024.

Foreldrar Þórðar eru Halldór Þorgils Þórðarson tónlistarmaður, f. 5.1. 1938, og Ólafía Bjarney Ólafsdóttir húsfreyja, f. 20.3. 1938, bændur á Breiðabólstað. Systkini Þórðar eru Sigrún Birna, f. 1959, Steinunn Helga, f. 1961, Ólafur Kjartan, f. 1963, og Inga Heiða, f. 1976.

Þórður kvæntist 24. júní 2006 Önnu Karin Cederholm, f. 9.12. 1976. Börn þeirra eru Greta Rún háskólanemi, f. 20.6. 2003, og Halldór Erik nýstúdent, f. 18.2. 2005. Þórður og Anna Karin slitu samvistum 2011.

Þórður ólst upp á Breiðabólstað, vann þar að bústörfum eftir grunnskólann í félagsbúi með foreldrum sínum, lauk búfræðinámi frá Bændaskólanum á Hvanneyri 1978. Hann vann ýmis störf með búskapnum, gerði m.a. út grásleppuveiðibát í 20 ár og keyrði mjólkurbíl í nokkur ár. Tók síðan alfarið við búskap á Breiðabólstað allt fram til ársins 2010 er hann lét af búskap vegna veikinda. Var eftir það búsettur í Búðardal og vann hjá Vegagerðinni allt til dauðadags.

Þórður elskaði sveitina og hans uppáhaldstími var haustið. Smalamennskurnar og að gera sér glaðan dag að þeim loknum í hópi góðra félaga, það var lífið.

Þórður var góður íþróttamaður, keppti í frjálsum íþróttum og knattspyrnu með ungmennafélaginu Dögun og var lengi í stjórn þess félags.

Tónlist var mjög mikilvæg í lífi Þórðar og var hann rómaður fyrir sína fallegu barítónrödd. Hann byrjaði ungur að syngja með kórum í sveitinni og söng í kór þar til hann lést. Að auki var Þórður í söngkvartettinum Guttunum í nokkur ár, sem og í dúettum sem sungu við ýmis tækifæri. Þess utan spilaði Þórður í hljómsveit til margra ára, var afbragðs trommuleikari.

Útför Þórðar fer fram frá Staðarfellskirkju í dag, 26. júlí 2024, kl. 14.

Það er með miklum söknuði og trega í hjarta sem ég skrifa hér nokkur orð um Þórð eða Tóta okkar eins og við kölluðum hann.

Þórður var tveggja barna faðir frá Breiðabólsstað á Fellsströnd (Sólarströnd, eins og hann kallaði ströndina sína). Hann var einn af fimm börnum hjónanna Halldórs Þ. Þórðarsonar og Ólafíu B. Ólafsdóttur.

Leiðir okkar Þórðar vinar míns og vinnufélaga lágu fyrst saman þegar við hófum skólagönguna sjö ára gamlir í heimavist á Laugum í Sælingsdal. Við vorum þar settir í herbergi saman og urðum strax mjög góðir vinir og vorum herbergisfélagar alla skólagönguna. Þórður var mjög hæfileikaríkur á margan hátt, hann átti mjög auðvelt með allt nám, varð strax góður söng- og tónlistarmaður og hafði mjög gaman af að syngja og spila á hljóðfæri. Hann átti mjög auðvelt með að semja og segja sögur. Þórður söng í fjórum kórum þegar mest var og í kvartett Dalamanna. Einnig spilaði hann í hljómsveit. Hann var mikill keppnismaður í íþróttum og öðru sem hann tók sér fyrir hendur. Þórður var mjög góður vinur, hann var mjög hláturmildur og mikill gleðigjafi fyrir alla þá sem umgengust hann. Þórður tók við búrekstri foreldra sinna á Breiðabólstað og stundaði einnig hrognkelsaveiðar, fjárflutninga og kórsöng. Þórður var alla tíð mjög mikill dýravinur og hafði mjög gaman af því að fara í reiðtúra og hestaferðir með Önnu sinni. Hann hafði einnig mjög gaman af að spila bridge.

Þórður og nýstofnuð fjölskyldan varð fyrir mjög miklu áfalli í ágúst árið 2007 þegar æðargúlpur sem myndast hafði í höfði hans sprakk í aðgerð sem gerð var til þess að laga þennan gúlp, við það blæddi mikið inn á heilann. Afleiðing þess varð að Þórður lamaðist á hægri hlið líkamans og missti málið. Við tók löng og mjög erfið endurhæfing, Þórði tókst með stuðningi og aðstoð að komast aftur á lappirnar með stuðningsspelku á hægra hnénu, en hægri höndin var alveg lömuð. Smátt og smátt fór hann að geta myndað orð, en ekki langar setningar. Þórður, Anna og börnin reyndu að halda áfram búskap á Breiðabólsstað. Sveitungar þeirra og vinir reyndust þessari ungu fjölskyldu mjög vel í þessum ömurlegu aðstæðum, börnin þeirra einungis tveggja og fjögurra ára. Efnt var til tónleika og fjársöfnunar, með það að markmiði að kaupa sérútbúinn Massey Ferguson-traktor sem Þórður gæti stjórnað með vinstri hendinni, til að gera honum kleift að stunda bústörfin.

Þórður og Anna ákváðu svo að hætta búrekstrinum 2010 og flytja til heimalands Önnu, Svíþjóðar. En Þórði líkaði ekki dvölin í Svíþjóð, þau ákváðu þá að skilja og Þórður flutti aftur heim í Dalina og settist að í Búðardal.

Árið 2012 lágu leiðir okkar Þórðar aftur saman þegar Svæðisskrifstofa fatlaðra á Vesturlandi leitaði eftir því við sveitarstjórn hér hvort mögulegt væri að finna Þórði einhverja vinnu við hans hæfi. Í sveitarstjórn var á þeim tíma starfsmaður Vegagerðarinnar, sem bað mig um að skoða möguleikann á einhverju starfi fyrir Þórð, sem Svæðisskrifstofa fatlaðra hefði milligöngu um. Ég setti mig í samband við Hrein Haraldsson sem þá var vegamálastjóri og fékk heimild til að ráða Þórð til reynslu í 20% starf við að líma glit á vegstikur, sem var svo fljótt aukið í 40%. Þórður var fljótur að ná tökum á að líma glit á stikur, bara með vinstri höndina virka. Í fyrstu var Þórður frekar feiminn við að hitta aðra en vinnufélaga sína og ekki tilbúinn að mæta á viðburði hjá starfsmannafélagi Vegagerðarinnar á Vesturlandi, en þegar ég var búinn að suða í honum nokkrum sinnum um að koma með okkur, þá komu þessi orð hans jæja þá og mikill hlátur. Feimnin og óöryggið fór fljótt af honum og var hann orðinn með þeim fyrstu til að skrá sig á viðburði hjá starfsmannafélaginu. Mér er mjög minnisstætt þegar Þórður og Ásgeir, einn af fyrrverandi kvartettfélögum hans, ákváðu í sviðaveislu sem haldin var í Sauðhúsaskógi að syngja tvö lög fyrir okkur hin, þeir fóru út í rútu og æfðu sig aðeins þar, komu svo inn og sungu tvö lög, það var algjörlega ógleymanleg stund.

Þrátt fyrir fötlun sína ákvað Þórður að fá sér nokkrar kindur og fékk að vera með þær í litlum fjárhúsum á jörð rétt við Búðardal. Það var algjörlega magnað að sjá þegar hann var að gefa þeim, leysa og bera fram heyið.

Við fráfall Þórðar/Tóta okkar er mikið skarð höggvið í raðir okkar starfsmanna hjá Vegagerðinni í Búðardal og óhætt að segja að ekkert okkar skilur tilgang æðri máttarvalda þegar við horfumst í augu við orðinn hlut. Við minnumst hans með miklu þakklæti og hlýju fyrir góð og gefandi samskipti á 12 ára starfsferli hans hjá Vegagerðinni í Búðardal. Börnunum hans þeim Grétu Rún og Halldór Erik, Önnu barnsmóður hans, foreldrum og fjölskyldunni allri sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd starfsmanna Vegagerðarinnar,

Sæmundur Kristjánsson.