50 ára Eyjamaðurinn Tryggvi Guðmundsson fagnar fimmtugsafmæli í dag. Hann er markakóngur Íslands, skoraði 231 mark á ferli sínum heima, sem er enn merkilegra fyrir þær sakir að hann var í atvinnumennsku erlendis frá 23 ára aldri til þrítugs. „Já, metið stendur enn, en það er einn í Val sem á möguleika á að ná mér, Daninn Patrick Pedersen, sem er kominn upp í 210 mörk. Hann er í liði með syni mínum Guðmundi Andra í meistaraflokki Vals, og ég hef grínast við hann um að hann megi ekki senda boltann á Patrick,“ segir Tryggvi og hlær.

Tryggvi býr í Eyjum og starfar hjá Kubb, sem sér um sorphirðu í bænum, auk þess sem hann skrifar um alla leiki ÍBV fyrir fotbolti.net í hliðarvinnu. „Svo eru krakkarnir mínir í íþróttum, Guðmundur Andri og Ísabella Sara bæði í meistaraflokki Vals og Tristan Alex er í körfubolta hjá KR og þykir efnilegur. Tinna María þurfti því miður að hætta snemma vegna meiðsla.“