— Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson

Regnbogabrautin svokallaða á Húsavík verður áfram lokuð fyrir akandi umferð, eða til 12. ágúst. Ástæðan er miklar vinsældir götunnar, sem var fyrr í mánuðinum lokað fyrir akandi umferð og máluð í regnbogalitunum. Gatan, sem réttu nafni heitir Garðarsbraut, hefur nýst heimamönnum og ferðafólki vel sem útisvæði og til myndatöku.

Til stóð að gatan yrði lokuð fyrir akandi umferð fram yfir bæjarhátíðina Mærudaga, en sveitarfélagið hefur nú ákveðið að nýta áfram samþykkt skipulags- og framkvæmdaráðs frá 2. júlí og hafa hana lokaða á meðan ferðamannastraumurinn er hvað mestur, eða til 12. ágúst.