Verðmætasköpun iðnaðar er umtalsverð en hún nam 884 mö.kr. á síðasta ári sem er um fimmtungur af heildarverðmætasköpun hagkerfisins.

Atvinnulíf

Ingólfur Bender

Aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins

Frá fyrstu dögum iðnvæðingar til nútíma hátækni hefur iðnaður mótað þann heim sem við búum í. Hann hefur gjörbreytt samfélaginu, verið aflvaki hagvaxtar, skapað störf og lyft þjóðinni upp á nýtt stig velmegunar. Iðnaður hefur staðið fyrir uppbyggingu innviða, þjónustað landsmenn, framleitt vörur og alið af sér tækniframfarir sem hafa gjörbreytt daglegu lífi landsmanna til batnaðar.

Hér á landi starfa nú 50 þúsund manns í iðnaði sem er um 22% af heildarfjölda starfandi á íslenskum vinnumarkaði. Störfin eru fjölbreytt í stórum og litlum iðnfyrirtækjum um allt land. Fyrirtækin í útflutningi og á innlendum markaði eru í hugverkaiðnaði, framleiðsluiðnaði og byggingariðnaði og mannvirkjagerð.

...