Rachel Reeves fjármálaráðherra Bretlands á blaðamannafundi.
Rachel Reeves fjármálaráðherra Bretlands á blaðamannafundi. — Ljósmynd/AFP

Rachel Reeves fjármálaráðherra Bretlands segist stefna á að losa um eignarhald ríkisins í Natwest-bankanum á árunum 2025 eða 2026. Hún segist hætt við áform forvera síns um að selja hlutina í almennu útboði vegna þess hve kostnaðarsamt það yrði. Breska ríkið tók yfir rekstur Natwest í fjármálakrísunni haustið 2008 og eignaðist þá um 84% hlut í bankanum. Hlutur ríkisins er nú kominn rétt undir 20%. Bankinn hagnaðist um 1,7 milljarða punda á öðrum ársfjórðungi, nokkuð umfram væntingar.

Fyrri ríkisstjórn Íhaldsflokksins stefndi að því að selja eftirstandandi hluti ríkisins í bankanum til almennings. Gerð útboðsskjala hefur þegar kostað ríkið 24 milljónir punda. Reeves hefur nú útilokað þau áform. Hún sagði í breska þinginu í vikunni að yrði ráðist í almennt útboð þyrfti að bjóða verulegan afslátt, sem myndi að hennar mati kosta skattgreiðendur hundruð milljóna punda.