Þórður Harðarson fæddist 18. janúar 1951 í Reykjavík en ólst upp í Hafnarfirði. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 23. júlí 2024.

Foreldrar Þórðar voru Hörður Vigfússon, f. 13. júlí 1921 í Hafnarfirði, d. 23. ágúst 1999, og Sigmundína Pétursdóttir, f. 16. september 1918 á Laugum í Súgandafirði, d. 15. nóvember 1989. Systkini Þórðar voru Erling Ómar Haffjörð Harðarson, m. Ásdís Vignisdóttir, Magnús Einarsson, látinn, Vigfús Ævar Harðarson, látinn, Elísabet Sonja Harðardóttir, m. Magnús Ólafsson, Kristjana Harðardóttir, m. Björn Ragnar Sigtryggsson, Kristín Ása Harðardóttir, m. Sigurður K. Runólfsson, Ástþór Harðarson og yngstur var drengur Harðarson, látinn.


Þórður kvæntist 23. nóvember 1974 Guðrúnu Kristjánsdóttur frá Stykkishólmi, f. 29. desember 1954. Börn þeirra eru: 1) Rakel Ósk, m. Mido Nasser. Börn Rakelar eru Daníel Birgir Vieira og Amír Elmasry. 2) Sara Lind, m. Regin Mogensen, látinn, m. Sigurður Kárason. Börn Söru eru Gunnar Atli Snorrason og Þórunn Helga Mogensen. 3) Eva Ösp. Sonur hennar er Þórður Tandri Ágústsson. 4) Marta Rún, m. Ágúst Már Sigurðsson. Börn þeirra eru Urður, Hildur og Sigurður.

Þórður var gagnfræðingur frá Flensborg og fór einn vetur í Kennaraskólann. Eftir það hóf hann störf við Landsbankann í Reykjavík, fyrst í Austurstræti og síðan á Laugavegi 77.

Árið 1974 fluttust Þórður og Guðrún til Akureyrar og hóf Þórður þá störf hjá Landsbankanum á Akureyri þar sem hann starfaði til 65 ára aldurs, síðast sem aðstoðarútibússtjóri. Þórður var félagi í Frímúrarareglunni á Akureyri um margra ára skeið og sinnti þar mörgum trúnaðar- og embættisstörfum. Helsta áhugamál Þórðar var lestur og átti hann stórt safn bóka. Einnig var hann mikill frímerkjasafnari alla tíð.

Útför Þórðar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 2. ágúst 2024, og hefst athöfnin kl. 13. Jarðsett verður í kirkjugarðinum á Naustahöfða.

Doddi bróðir var traustur maður, þótti einstaklega vænt um sína fjölskyldu, dæturnar sínar fjórar og barnabörnin sín. Hann var farsæll í starfi, starfaði lengst hjá Landsbankanum, fyrst í Reykjavík en síðar í langan tíma á Akureyri eða í tæpa hálfa öld. Í eitt ár starfaði hann sem gjaldkeri hjá Rafha í Hafnarfirði er þau Gunna keyptu sér íbúð þar og prófuðu að búa í gamla heimabænum sínum, en Akureyri kallaði og þau fluttu aftur norður.
Dodda gekk vel að læra og var orðinn læs fimm ára gamall.
Hann var mikill lestrarhestur og sem barn fór hann mikið á Bókasafn Hafnarfjarðar og las jafnan mikið alla tíð. Þar vingaðist hann sem barn við Guðmund Böðvarsson skáld, sem var bókavörður um þriggja ára skeið og átti heima í næsta húsi við æskuheimili Dodda á Vitastíg. Þeir skiptust á bréfum og jólakortum fram á fullorðinsár Dodda.
Öðrum fullorðnum manni kynntist hann er hann var á leið til sveitardvalar á Vestfjörðum og fór með strandferðaskipinu Esjunni, þann mann sem var fæddur 1901 skrifaðist hann á við langt fram á fullorðinsár en þeir hittust samt aldrei eftir sjóferðina vestur.
Doddi fór í sumarbúðir í Glaumbæ sem var rétt sunnan við Hafnarfjörð og var fyrir börn 6 til 8 ára. Einnig fór hann í vinnuskólann í Krýsuvík þá sjálfsagt 8 ára. Þarna voru drengir látnir vinna, í bland við leik.
Doddi fór til Súgandafjarðar í sveit til móðursystur sinnar og hennar manns á Stað, þar hitti hann einnig fyrir frændsystkini sín. Hann bar alla tíð mikinn hlýhug til þessa frændfólks síns sem þar var og minntist þessa tíma með mikilli hlýju. Doddi dvaldist sumarlangt á Stað í fimm ár, frá 9 ára aldri og síðast sumarið 1965. Framan af því sumri vann hann í öskunni sem svo var kallað og kynntist þar mörgum öðlingnum eins og hann sagði síðar frá. En þráin var sterk að komast vestur og þangað fór hann. Einn af samstarfsmönnum hans í öskunni gaf honum vísu sem hann orti:

Þórður er bragna bestur
brautina hefur hann kannað.
Hann sér bara veginn vestur
og vill ekki fara annað.

Eftir grunnskóla í Lækjarskóla í Hafnarfirði fór Doddi í Flensborg og varð gagnfræðingur frá þeim skóla vorið 1968. Honum gekk vel að læra og fékk m.a. viðurkenningar fyrir ensku- og dönskukunnáttu sína.
Hann fór svo einn vetur í kennaraskólann en fann sig ekki í því námi.
Þarna um sumarið 1969 fór hann til Suður-Englands ásamt frænda sínum og unnu þeir þarna á sumarhóteli, sem var auðvitað ævintýri fyrir unga menn.
En allt frá 11 ára aldri vann hann með skóla fyrir Einar Long, í verslun Valdimars Long á Strandgötunni í Hafnarfirði, fyrst sem sendill og síðar við afgreiðslu þegar mikið var um að vera svo sem fyrir jól. Einnig hjálpaði hann lengi vel við uppgjör happdrættis Háskóla Íslands, en Einar var með umboð fyrir happdrættið í Hafnarfirði.
Doddi var rólegt barn, las mikið eins og áður hefur verið sagt, en eitt angraði hann sem barn og ungling en það var mígreni og leið honum oft illa meðan það gekk yfir.
Fyrsta plötuspilarann sinn keypti hann sér á unglingsárum, lítinn mónó-spilara, sem fleiri systkini hans fengu að njóta með honum. Honum þótti mjög gaman að hlusta og njóta tónlistar og í uppáhaldi á þessum árum var Diana Ross & the Supremes.
Á yngri árum var Doddi mikill kvikmyndaáhugamaður og fór mikið í bíó, við systkinin kölluðum hann bíópung. Hann safnaði prógrömmum af öllum myndum sem hann sá. Einnig var hann mikill frímerkjaáhugamaður og safnaði frá unga aldri frímerkjum, þá iðju tók hann svo aftur upp síðustu árin.
Því fylgdi alltaf tilhlökkun að fara til Akureyrar og heimsækja Dodda og Gunnu, sem tóku vel á móti fólkinu sínu sem var syðra. Alltaf var pláss á heimili þeirra fyrir alla, áratugum saman og margs er að minnast frá ferðalögum þessum.
Doddi var frábær bróðir okkur systkinum sínum, traustur og raungóður og var ávallt gott til hans að leita. Hann tranaði sér aldrei fram, var ekki raupsamur en komst áfram með sín verk af raunsæi.


Ástþór.