Hans Jakob (síðar Jakob S.) Jónsson, leikstjóri og leiðsögumaður, fæddist á Landspítalanum 7. maí 1956. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Reykjanesbæ 18. júlí 2024.

Foreldrar hans voru dr. Jón Hnefill Aðalsteinsson prófessor og Svava Jakobsdóttir, rithöfundur og alþingismaður. Bræður Jakobs samfeðra eru dr. Kristján Jóhann, f. 10. maí 1949, dósent emeritus, og Örlygur Hnefill hdl., f. 28 ágúst 1953.

Jakob ólst upp í Reykjavík, Eskifirði og Stokkhólmi. Hann lauk stúdentsprófi frá MH árið 1976. Að svo búnu fékkst hann helst við blaðamennsku og fór þá þegar orð af vel sömdum og athyglisverðum viðtölum hans og blaðagreinum. Árið 1982 fór hann utan til náms á gamlar heimaslóðir. Jakob lauk námi í kvikmynda- og leikhúsfræðum frá Stokkhólmsháskóla og ílentist síðan þar í landi við frekara nám og margvísleg störf í leikhúsfræðum rúma tvo áratugi.

...