Grétar Snær Hjartarson fæddist 7. ágúst 1937. Hann lést 11. júní 2024.

Hann var sonur hjónanna Aðalheiðar Rögnu Sveinsdóttur kennara og organista og Hjartar Hjálmarssonar skólastjóra. Foreldrar Rögnu voru Sigríður Oddný Benediktsdóttir og Sveinn Gunnlaugsson. Foreldrar Hjartar voru Guðleif Kristín Þorsteinsdóttir og Hjálmar Stefán Þorláksson.

Grétar kvæntist 28.1. 1961 eftirlifandi eiginkonu sinni Sigrúnu Sigurðardóttur, f. 7.1. 1940. Hún er dóttir Dórótheu Jóhannesdóttur húsmóður og Sigurðar Magnúsar Jónssonar sjómanns og verkamanns. Börn Grétars og Sigrúnar eru: 1) Sigurður Magnús, f. 11.10. 1960, giftur Evu Nittaya Sudsawat Grétarsdóttur, börn Sigurðar eru a) Helga Rún, f. 1997, sambýlismaður hennar er Karel Atli Ólafsson, synir þeirra eru I) Adriel Máni, f. 2017, og II) Atlas Örn, f. 2020. b) Grétar Songkran, f. 2003, c) Sigrún Jitlada, f. 2004, d) Elín Petlada, f. 2009. 2) Hjörtur Sveinn, f. 26.11. 1961, fráskilinn, börn hans eru a) Ólafía Mjöll Hönnudóttir, f. 1982. Börn hennar eru I) Aníta Líf Nilsen Ómarsdóttir, f. 2001, sambýlismaður hennar er Bjartur Evald Magnússon, barn þeirra er Máni Snær Evald, f. 2021, II) Benedikt Snær Hauksson, f. 2006, b) Sigrún Ragna Guðlaugardóttir, f. 1986, c) Grétar Snær, f. 1989. d) Kristrún Ósk, f. 1994. 3) Dóróthea Heiður, f. 29.9. 1968, gift Ingólfi Erni Steingrímssyni, börn þeirra eru a) Steingrímur Örn, f. 1992, sonur hans Ingólfur Örn, f. 2021, b) Sigrún Arna, f. 1999, c) Theódór Örn, f. 2002.

Grétar fæddist á heimili foreldra sinna á Flateyri við Önundarfjörð. Hann útskrifaðist frá Samvinnuskólanum að Bifröst í Borgarfirði 1959. Grétar starfaði ungur við verkamannavinnu á Flateyri og í vegagerð, síðan hjá Kaupfélagi Önfirðinga 1959-1960, hann leysti af sem kaupfélagsstjóri í Grindavík, fulltrúi hjá Innkaupastofnun ríkisins, skrifstofustjóri Klæðaverslunar Andrésar og rekstrarstjóri Flugfélagsins Vængja, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Ísfirðinga 1971-1974, starfsmannastjóri Skýrr 1975-2004, sem skólaliði við Lágafellsskóla, hjá Landssamtökum eldri borgara sem framkvæmdastjóri og formaður Famos.

Grétar var ötull í félagsstörfum, sat m.a. í stjórn ungmennafélagsins Grettis á Flateyri og var formaður, vann að málefnum badmintoníþróttarinnar, uppbyggingu Íþróttahúss TBR og var meðal stofnenda og síðar formaður félags badmintondómara, var meðal stofnenda badmintondeildar UMFA í Mosfellsbæ og sat í stjórn hennar, starfaði með golfklúbbnum Kili í Mosfellsbæ að uppbyggingu á golfvelli, aðstöðu klúbbsins, mótahald og sat í stjórn, meðal stofnenda Mosfellskórsins og sat í stjórn hans, sat í stjórn karlakórsins Stefnis í Mosfellsbæ, starfaði með Litla Leikklúbbnum á Ísafirði og með Leikfélagi Mosfellssveitar.

Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Í dag hefði pabbi orðið 87 ára en hann lést 11. júní síðastliðinn. Líkamlegu heilsunni hrakaði síðustu misserin en hugurinn var skýr og skarpur alveg fram í andlátið.

Pabbi hafði sjálfur skipulagt útför sína m.a. að hann vildi bálför, hann var jarðsunginn þann 21. júní í kyrrþey að eigin ósk og verður jarðsettur í dag.

Pabbi var fæddur á heimili foreldra sinna að Grundarstíg 18 á Flateyri. Hann ólst þar upp ásamt Emil bróður sínum við mikið ástríki vænna foreldra. Þeir bjuggu líka við þann munað að hafa ömmu sína og afa í sama húsi. Allt þetta fólk var þeim mikil fyrirmynd, ekki síst afinn Sveinn sem einnig var kennari þeirra og skólastjóri. Þeir fengu að auki að kynnast langafa sínum Gunnlaugi, sægarpinum úr Flatey á Breiðafirði sem bjó hjá þeim á Grundarstígnum seinustu æviárin orðinn gamall og blindur en alltaf stríðinn og skemmtilegur.

Það var mikið frelsi að alast upp í litlu bæjarfélagi þar sem allir þekktu alla og leiksvæðin voru fjaran, fjallið og allt þar á milli. Ungir og orkumiklir krakkar sem tóku þátt í öllu sem var í boði. Allra handa félagsstarf og spilað á hljóðfæri við hin ýmsu tækifæri. Frjálsar íþróttir og skíðin stunduð á vetrum. Þar var minn maður líklega oft kaldari en getan bauð upp á sem kostaði einhver brákuð og brotin bein í upphafi ferilsins. Eins og önnur ungmenni á þessum tíma fengu þeir að vinna í frystihúsi, byggingarvinnu og það sem pabba fannst skemmtilegast, í vegavinnu.

Þegar pabbi talaði um uppvaxtarárin var það alltaf af mikilli hlýju, um lífið á eyrinni og fólkið sem hann var samferða, æskuvini og fullorðið fólk sem lagði lykkju á leið sína til að aðstoða krakkana í leik og starfi. Þar voru til dæmis sögur af því þegar vinirnir voru að smíða sér vörubíla til að leika sér með og til þess að tryllitækin þyldu akstur á erfiðum vegum þurfti traustar fjaðrir. Þá var farið til Vilbergs í smiðjunni sem bútaði niður járnsagarblöð og boraði fyrir festingum. Aldrei tekin króna fyrir þó vinnutíma væri fórnað. Eða kallarnir sem lögðu mikið á sig við að aðstoða krakkana að gera áramótabrennuna sem veglegasta ár hvert. Sögurnar hljómuðu eins og eyrin hafi verið paradís á jörð og ég efast ekki um að í hans huga var hún það, staður þar sem þorpið ól upp börnin og kom þeim til manns.
Pabbi hafði mikið yndi af músík og spilaði á nokkur hljóðfæri. Píanó og harmonikka voru hans uppáhalds hljóðfæri en sjálfur hefði hann líklega sagt að hann gæti glamrað á gítar, trompet og eitthvað fleira. Hann söng í allnokkrum kórum, lék með áhugaleikfélögum, lék lítil hlutverk og var statisti í nokkrum bíómyndum, m.a Stellu í orlofi og Karlakórnum Heklu.
Pabbi hafði líka mikla ánægju af allskyns félagsstörfum. Félögin og klúbbarnir sem hann var í, oftar en ekki í stjórn, eru svo mörg að ég held ég leggi ekki í að byrja þá upptalningu.
Íþróttir stundaði hann þar til fyrir nokkrum árum. Eftir að suður var komið spilaði hann badminton og stóð á skíðum. Seinustu áratugina átti golfið hug hans allan, bæði spilamennskan og starfið í kring um íþróttina hjá Golfklúbbnum Keili, uppbygging vallarins, dómgæsla og fleira.
Pabbi var mikill nákvæmnismaður og var þekktur fyrir að vera bókstafstrúarmaður þegar kom að golfreglunum. Ég stríddi honum stundum á því og sagði að ef sú staða kæmi upp að golfreglurnar og stjórnarskráin myndu skarast, þá færi hann örugglega eftir golfreglunum. Ég held að honum hafi ekki leiðst stríðnin.
Pabbi vann í lífsins lottóinu þegar hann kynntist mömmu á Samvinnuskólanum að Bifröst, Þau áttu gott líf, gengu lífsleiðina saman í 67 ár, samheldin og mjög góðir foreldrar.
Þau eignuðust okkur þrjú systkinin og fjölda barnabarna, barnabarnabarna og eitt barnabarnabarnabarn. Pabbi var mikill barnakall, hafði gaman af ungviðinu og var ótrúlega stoltur af hópnum sínum og skipti það hann engu hvort afa- og langafabörnin kæmu eftir blóðlínunni eða væru bónusbörn. Hann elskaði þau öll.
Gott dæmi um hvað honum fannst börn skemmtileg er að eftir að hann var komin á eftirlaun vantaði hann að hafa eitthvað fyrir stafni þar til mamma hætti að vinna og réði hann sig í hálft starf sem skólaliði í Lágafellsskóla í einn og hálfan vetur. Þegar ég spurði hann hvernig honum líkaði starfið svaraði hann að launin væru ¼ af laununum hjá Skýrr en vinnufélagarnir (börnin) væru skemmtilegri. Hann sagði líka um það starf að þar væri hann á launum við að leika sér fram að hádegi.

Jæja gamli, þá er komið að leiðarlokum hjá okkur í bili.
Af mörgu er að taka en mér er efst í huga þakklæti fyrir að hafa alist upp við ástríki og gott atlæti alla tíð. Að fá kannski ekki allt sem mann langaði í en allt sem maður þurfti. Það er ekki sjálfgefið að eiga athvarf hjá og eiga vísan stuðning góðra foreldra. Ég tel það mikil forréttindi að hafa fæðst inn í þessa fjölskyldu öðlinga langt aftur í ættir. Þakklátur þér fyrir hvað þú nenntir endalaust að snúast í kring um okkur. Hvort sem var að fara með okkur á skíði eða að sækja prinsinn á Laugarvatn í helgarfrí frá skólanum af því að hann nennti ekki með rútunni þegar Óli Ket keyrði. Hjálpina við að mála hverja íbúðina á fætur annarri, aðstoða mömmu við að passa barnabörnin svo eitthvað sé nefnt, að ég tali nú ekki um alla ástúðina, traustið og velvildina. Þakklátur ykkur mömmu fyrir að ég hafi aldrei á ævinni, ekki í eina mínútu, efast um að vera elskaður skilyrðislaust, þó stundum hafi hvesst, sérstaklega þegar sonurinn var að æfa sig í að vera vandræðaunglingur. Þakklátur fyrir hvað þú varst góður og stoltur afi, barnabörnin og barnabarnabörnin eiga góðar minningar í tonnavís af ykkur mömmu.
Það hefur ekki alltaf verið auðvelt fyrir ykkur að eiga skæruliðana tvo, þó þið hafið oft getað hlegið að uppátækjum bræðranna. En þið voruð sannarlega verðlaunuð fyrir þolinmæðina þegar örverpið og engillinn hún systir okkar fæddist, svo meðaltalið varð ágætt að lokum.
Svo var nú dálítið skondið hvað þú áttir erfitt með að taka hrósi og þakklæti. Ég minnist þess þegar hún Sigrún mín Ragna var tveggja ára og við vorum að flytja inn í nýja íbúð en höfðum ekki efni á gólfefnum í bili. Þá komst þú og sagðir að mamma gæti ekki hugsað sér að nafna hennar væri að ganga á köldu, máluðu gólfinu. Sagðir að hún vildi láta okkur hafa peninga fyrir filtteppi að hafa þar til við hefðum efni á varanlegu gólfefni. Svo hittumst við eins og sprúttsalar á bílastæði við verslun þar sem ég fékk ávísun, pening og happdrættismiða með vinningi á. Mamma skildi svo ekkert hvað ég var að tala um þegar ég þakkaði henni fyrir teppið.
Og svo er það íslenskan. Við bræður vinnum engin verðlaun á þeim vígstöðvum en ekki veit ég hvernig hún væri hjá okkur ef ekki væri fyrir þusið um þágufallssýkina og allt hitt.
En svo kom amma okkur til bjargar þegar hún sagði okkur söguna af þér þriggja ára að lýsa því sem fram fór á sjómannadaginn fyrst var skjótt og svo var árað og árað til að vita hver yrði undastur. Þetta var svarið sem þú fékkst við leiðréttingum eftir það. Ég veit að þú hafðir lúmskt gaman af þeirri stríðni.
Sjáumst seinna gamli minn.
Þinn elskandi sonur,

Hjörtur Sveinn Grétarsson.

Í dag, 7. ágúst, verður pabbi jarðsettur, en við hefðum fagnað 87 ára afmæli hans í dag hefði hann lifað.
Hann lést 11. júní síðastliðinn og var jarðsunginn í kyrrþey, að eigin ósk, þann 21. júní.
Að vissu leyti hafði pabbi undirbúið okkur undir þennan dag, því eftir að hann greindist hjartveikur árið 2007 þá sagði hann við okkur að ef hann færi þá væri það alveg í lagi. Hann hefði átt mjög gott líf, alist upp á yndislegum stað hjá góðum foreldrum, átt góða konu, góða fjölskyldu og haft gott fólk í kring um sig. Hann var alveg sáttur. Þetta hef ég haft í huga undanfarnar vikur ásamt þakklæti fyrir því að við fengum að hafa hann hjá okkur í 17 ár í viðbót.
Það er auðvitað margs að minnast eftir öll þessi ár en efst í huga er minning um góðan pabba sem sýndi okkur börnum sínum og okkar afkomendum mikla væntumþykju og var mjög stoltur af öllum hópnum sínum. Hann vildi allt fyrir okkur gera og dekraði og dúllaði við okkur, til dæmis átti hann það til að svæfa mig þegar ég var lítið barn með því að taka fram greiðuna sína og greiða mér í svefn.
Á unglingsárum mínum æfði ég fótbolta með UMFA í Mosfellsbæ. Á þeim tíma var ekki sami tíðarandi og í dag varðandi þátttöku foreldra, en pabbi reyndi að mæta á flesta leikina okkar og oft var hann eina foreldrið sem mætti til að hvetja okkur áfram. Smátt og smátt fjölgaði svo í hópi foreldranna sem mættu okkur til stuðnings.
Pabbi tók þátt í stofnun badmintondeildar innan UMFA og hvatti mig til að prófa þá íþrótt, sem ég hafði svo mjög gaman af að æfa. Eitt sinn fór badmintonhópurinn í æfingaferð á Laugarvatn og fyrir ferðina keypti pabbi nokkrar golfkylfur til að hafa ofan af fyrir þeim hluta hópsins sem ekki væri í íþróttahúsinu hverju sinni. Eftir þessa ferð má segja að golfáhugi hans hafi vaknað og skipaði golfíþróttin stóran sess í hans lífi allt þar til heilsu þraut, hvort sem var við iðkun eða annað starf fyrir golfklúbbinn.
Pabbi er af þeirri kynslóð sem var ekki mikið að bera tilfinningar sínar á torg, en aldrei efuðumst við samt um ást hans og væntumþykju.
Í brúðkaupsveislu okkar Ingólfs hélt pabbi ræðu eins og hefð er fyrir. Gestir okkar höfðu margir á orði að þetta hefði verið besta pabbaræða sem þeir hefðu heyrt og hún skildi eftir tár á hvarmi hjá jafnvel hörðustu karlmönnunum í salnum. Þarna bauð hann Ingólf og Steingrím velkomna í fjölskylduna og afhenti nýbökuðum tengdasyninum lykil að húsi þeirra mömmu og sagði þá feðga ávallt velkomna á þeirra heimili. Reyndar seldu þau húsið nokkrum vikum síðar, sem vakti auðvitað kátínu í þessu samhengi, en lyklinum var fljótlega skipt út fyrir lykil að nýja húsinu.
Afabörnin, langafabörnin og langalangafabarnið fengu auðvitað að njóta barngæsku pabba. Börnin fundu fyrir hlýjunni og vildu láta afa halda á sér eða kúra upp að honum. Þau mamma voru ávallt tilbúin að passa fyrir okkur þegar eftir því var leitað og börnin eiga ótal minningar um samveru við ömmu sína og afa þar sem þau fóru saman í göngutúra, teiknuðu og máluðu, spiluðu á orgelið hans afa, fóru með þeim á leikvelli og í ferðalög. Slíkar minningar eru dýrmætar að eiga og ylja sér við.
Mestallan sinn starfsaldur starfaði pabbi hjá SKÝRR, en eftir að hann fór á eftirlaun starfaði hann á tímabili sem skólaliði hjá Lágafellsskóla. Þar naut hann sín vel og fengu nemendurnir að finna fyrir hans gæsku. Til dæmis keypti hann nokkur pör af vettlingum sem hann gat þá lánað börnum sem höfðu gleymt sínum og var kalt á fingrunum. Starf hans fólst meðal annars í gangbrautarvörslu á morgnana. Á rigningardögum tók hann stóru golfregnhlífina með sér til að börnin gætu leitað skjóls undir henni á meðan beðið var færis að komast yfir götuna. Hann átti það líka til að vera með rúðusköfu í vasanum og skafa snjóinn betur af ljósum og framrúðum þeirra sem ekki höfðu nennt að skafa nema lítið gat og stofnuðu að honum fannst börnunum og öðrum vegfarendum í hættu.
Það er óhætt að segja að pabbi hafi notið lífsins, hann hafði mjög mikla ánægju af alls konar félagsstörfum, íþróttum og tónlist. Hann átti sæmilega stórt plötusafn, spilaði á nokkur hljóðfæri þó hann hafi ekki lært nótnalestur fyrr en um fertugsaldurinn og söng í nokkrum kórum yfir ævina. Enda sé ég hann fyrir mér í sumarlandinu búinn að kalla saman á æfingu hjá þeim félögum úr skólahljómsveit Bifrastarskóla sem fallnir eru frá og það er kátt á hjalla.
Takk elsku pabbi minn fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína öll þessi ár, minningin um þig mun ylja okkur um ókomin ár.
Þín dóttir,

Dóróthea.