Thorvaldsen Kaupmannahafnarborg gaf Íslendingum hina kunnu styttu.
Thorvaldsen Kaupmannahafnarborg gaf Íslendingum hina kunnu styttu.

Í ár eru 150 ár liðin frá því að Kaupmannahafnarborg gaf Íslendingum styttuna af Bertel Thorvaldsen, árið 1874, og var tilefnið 1.000 ára afmæli þjóðarinnar. Þess verður minnst með málþingi sunnudaginn 11. ágúst kl. 13 í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi. Málþingið ber yfirskriftina „Eftir sinni mynd“.

Styttan var fyrsta útilistaverkið sem reist var á Íslandi og markaði tímamót í menningarsögu þjóðarinnar og skipulagi Reykjavíkur, eins og segir í tilkynningu vegna málþingsins. Segir þar einnig að árið 1874 hafi verið tímamótaár fyrir þær sakir að þá hafi Danakonungur komið í fyrstu heimsókn sína til Íslands og þjóðin fengið sína fyrstu stjórnarskrá. Dagskrá málþingsins má finna á vef safnsins, listasafnreykjavikur.is. Aðgangur er ókeypis að málþinginu og það öllum opið en skráning fer fram á vef safnsins.