Elísabet Gunnarsdóttir fæddist 21. maí 1945. Hún lést 28. júní 2024. Erfi fór fram 7. ágúst 2024.

Við kölluðum okkur Botnsúlur. Hópur nokkurra kvenna sem tók upp á því upp úr 1980 að ganga saman einu sinni í viku. Við höfðum kynnst við stofnun Kvennaathvarfsins og tekið þar vaktir fyrstu árin. Beta Gunnars hafði tekið þátt í undirbúningi að stofnun þess og var það ekki eina frumkvöðlastarfið sem hún átti sinn þátt í.

Beta var alltaf hvetjandi og tilbúin í göngur sama hvernig viðraði. Í gönguferðum okkar lagði hún oft til að við færum út fyrir Borgina en hún var alin upp á Keldum og í Grafarholti og því í nánum tengslum við náttúruna. Hún hafði næmt auga fyrir litbrigðum náttúrunnar og átti það til að stöðva allt í einu og benda á litbrigði skýjanna eða á hina mörgu grænu liti móa og skóga. Svo voru þær ófáar bækurnar sem hún endursagði fyrir okkur.

...