Mette Frederiksen
Mette Frederiksen

Pólskur karlmaður var í gær dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir að hafa slegið Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana á Kolatorginu í Kaupmannahöfn hinn 7. júní síðastliðinn. Sló maðurinn, sem er 39 ára gamall, Frederiksen í hægri öxlina með lokuðum hnefa og fékk hún hálshnykk eftir atvikið. Þá var hann einnig dæmdur fyrir ýmis minni brot, m.a. að hafa berað sig á almannafæri og fyrir fjársvik.

Maðurinn neitaði sök og sagðist fyrir rétti muna eftir því að hitt Frederiksen, en ekki að hann hefði slegið til hennar. Bar fyrir sig minnisleysi af völdum áfengisneyslu. Hann hefur búið í Danmörku undanfarin fimm ár, en verður nú sendur úr landi að afplánun lokinni. Þá mun hann ekki mega koma aftur til Danmerkur næstu sex árin.