Fred Saraiva, miðjumaður úr Fram, var besti leikmaður Bestu deildar karla í fótbolta í júlímánuði, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins.

Fred fékk samtals fjögur M í fjórum leikjum Framara í deildinni í júlí og var tvisvar valinn í úrvalslið umferðarinar, bæði í 14. og 15. umferð.

Brasilíumaðurinn hefur verið besti leikmaður Fram í deildinni á þessu tímabili, samkvæmt M-gjöfinni, en hann er efstur leikmanna liðsins með 13 M samtals í 16 umferðum. Næstur á eftir honum er Kyle McLagan með samtals 10 M en Kyle var besti leikmaður deildarinnar í apríl.

Fred er jafnframt með forystu í M-gjöfinni hjá Morgunblaðinu með þessi 13 M en tveir eru jafnir honum, Jónatan Ingi Jónsson úr Val og Viktor Jónsson úr ÍA.

...