Egill Þorsteinsson fæddist í Reykjavík 20. janúar 1965. Hann lést á Hopital Georges-Pompidou í París 7. júlí 2024.

Foreldrar hans voru Þorsteinn Egilsson, f. 25.1. 1927, d. 7.1. 2015, og Sigurdís Alda Jónsdóttir, f. 11.4. 1930, d. 8.1. 2023, og ólst hann upp hjá þeim í Stóragerði 28 í Reykjavík. Eftirlifndi systir Egils er Helga, f. 1956. Bróðir Þorsteins, Sveinbjörn var giftur Önnu systur Öldu og á milli þessara fjölskyldna var einstaklega mikill samgangur og kærleikur, svo segja má að þar hafi Egill átt þrjár skásystur, þær Guðnýju, Sigurlaugu og Önnu Dís.

Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1984 fór Egill eitt ár í sagnfræði í H.Í. og annað ár til Bretlands en síðan lá leiðin til Frakklands að læra frönsku. Stuttu heimkomuna frá Frakklandi eða árið 1989 kynntist hann franskri konu Béatrice. Þau felldu hugi saman giftu sig árið 1991. Dætur Egils og Béatrice eru: 1) Agathe fæðingarlæknir, f. 1993. 2) Stella nemi, f. 2000.

Þau bjuggu fyrstu árin í Frakklandi, fluttu þá til Íslands og bjuggu þar árin 2003 til 2007 en fluttu síðan aftur til Frakklands og hafa búið í París síðan.

Á Íslandi vann Egill m.a. á Geðdeild L.H.S og við Icelandair hótel, hann nam svo landafræði og ferðamálafræði í Frakklandi og vann lengst af við Marriott hótelið í miðborg Parísar.

Egill og Béatrice hafa ætíð lagt mikla rækt við fjölskylduna á Íslandi og segja má að þau hafi komið í heimsókn nánast árlega öll þau ár sem þau bjuggu í Frakklandi.

Áhugi þeirra hjóna var m.a. að ferðast og ferðuðust þau víða og höfðu unun af gönguferðum í náttúrunni hvar sem þau voru. Þau eignuðust hús á æskuslóðum Béatrice sem þau hafa verið að gera upp og þar hafa þau ræktað garðinn sinn í orðsins fyllstu merkingu, bæði ávexti og grænmeti. Um leið voru þau í nánu sambandi við foreldra Béatrice og síðustu árin föður hennar eftir að móðir hennar lést.

Egill hafði mikla unun af tónlist, lærð á klassískan á gítar og seinna á píanó. Hann hafði  áhuga á ljóðum, bókmenntum og kvikmyndum og sinnti þessum áhugamálum eftir fremsta megni.

Útför Egils fór fram 15. júlí 2024 í París en hann mun hvíla í Frakklandi.

Elsku Egill frændi.

Síðustu vikur hefur hugurinn hvarflað alloft til þín og rifjaðar upp minningar og samspil okkar frá því í Stóró hjá ömmu og afa. Þú varst þrettán þegar við kynntumst fyrst, ég man ekkert eftir því – hvítvoðungurinn sem eignaði sér sitt annað heimili hjá ykkur. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig það hefur verið fyrir þig að eignast skásystur sem veitti harða samkeppni um athygli foreldra þinna. Á stundum hefur það örugglega verið hundleiðinlegt, en á öðrum mögulega frelsandi. Það hefur samt örugglega ekki verið frelsandi þegar ég, tveggja ára, stökk alklædd í baðið til þín í Stóró þegar amma leit undan.

Í Stóró var herbergið þitt að vissu leyti eins og helgiskrín sem ég mátti stundum heimsækja þegar ég var í pössun. Ótrúlega spennandi apparöt koma upp í minningum eins og gítarinn þinn, bílarnir, Mastermind í skúffunni og ótrúlega flotta rúmið þitt sem gat verið sófi á daginn og rúm á nóttunni. Merkileg þolinmæði hjá þér gagnvart leynilegum skoðunarferðum mínum og óvæntum innrásum þegar þú og félagarnir reynduð að fá frið og spila tónlist. Og manstu þegar þú fékkst Marantz-geislaspilarann! Ó maður lifandi hvað það var spennandi apparat, hægt að hreyfa skúffuna fram og til baka en ég mátti alls ekki setja diskana í – kámugir fingur gátu nebblega á þeim tíma skemmt geisladiska. Svo mátti heldur alls ekki setja á þá vatn eða Ajax eins og amma lagði til einu sinni. Þá myndu þeir skemmast. Seinna meir kenndir þú mér hvernig rétt væri að halda á geisladiskum, bara með tveim fingrum og einum í gatið í miðjunni. Ég kann það ennþá.

Mér fannst þú ótrúlega flinkur á gítar. Sérstaklega þegar þú spilaðir fyrir okkur ömmu og afa í stofunni. Þá var sko slökkt á sjónvarpinu, sem var nú alla jafna í gangi. Það voru græjur í stofunni sem voru, eftir mínu minni, aldrei notaðar. Eina tónlistin sem ég man eftir í Stóró sem ekki var úr gufunni var þegar þú spilaðir á gítarinn. Svo varstu meira að segja í hljómsveit og þið voruð með hljómsveitarhúsnæði … í einhverjum krömmí kjallara í miðbænum sem var fóðraður held ég með eggjabökkum og þar var vond lykt. Kannski er það bara minningin, en þetta er nú víst stæðilegt hús við hliðina á Dómkirkjunni í miðbæ Reykjavíkur. Ég var þess fullviss um að þú yrðir frægur tónlistarmaður – það eru bara svoleiðis sem eru með eigið hljómsveitarpláss. Það varð meira að segja umræðuefni hjá mér og vinum mínum hvað ég ætti frægan frænda – í hljómsveit sem ég mundi nú ekki hvað hét.

Svo fórstu bara til útlanda. Fyrst fórstu held ég til Englands þar sem var svo kalt að amma hafði miklar áhyggjur af að þú fengir lungnabólgu og varð tíðrætt um. Fyrir mér var það eins og svartidauði við allar þessar umræður. Þú þurftir íslenskan lopa og engar refjar, helst lopasokka og peysu. Ætli það hafi ekki verið sent til þín með fraktara í gegnum Hull eða Grimsby eða eitthvað þvíumlíkt. Þú varst í langtíburtistan og amma hafði áhyggjur – þá hafði ég það líka. Það var því gott að fá þig heim í smástund.Svo hittirðu bara fallegu frönsku konuna og fórst aftur til útlanda. Og allt breyttist. Allt í einu mátti ég bara sofa í þínu herbergi með minn rauða kodda og amma og afi of gömul til að hafa millistykki. Og frægi ævintýrafrændinn var kominn með franska prinsessu upp á arminn. Öllu var til tjaldað og afi skráði okkur slektið í frönskuskóla svo við værum nú samræðuhæf við fjölskylduna. Úff hvað mér fannst það nú ekkert allt of gaman með afa, mömmu og frænku einhver kvöld í viku … kommon. Amma slapp, enda talaði nú afi yfirleitt alltaf fyrir hana eins og þú veist. En við urðum því að hún átti heima í frönsku þorpi sem var með kastala og kirkju, alvöru prinsessa sko.

Og okkur var boðið … í brúðkaupið í kastalanum og kirkjuna. Þá var ég jafn gömul og þú þegar ég fæddist. Það var svo gaman að fara í sveitina í Frakklandi – þó að þetta hafi ekki verið svona kastali og prinsessuþorp. Ekki bara fékk ég að velja kanínu sem mér fannst falleg, sem var svo í matinn og ég fékk fæturna gefins með, heldur var líka brúðkaup í kirkju sem var sirka jafn gömul og afi og partí um kvöldið. Matseðillinn var bók sem var torlesin þó hún væri á íslensku, hvernig átti ég að borða allan þennan mat? Ég náði að kynnast nokkrum frönskum krökkum á mínum aldri þökk sé frönskunámskeiðinu sem voru ótrúlega skemmtilegir og máttu drekka rósavín! Ég fékk líka að smakka, oj. Svo í lok veislunnar var haldinn feluleikur í öllu þorpinu þar sem allir í partíinu áttu að finna ykkur tvö. Getur það verið meira ævintýri?

Seinna þegar ég gisti í Stóró hugsaði ég oft til þín. Hvort þú saknaðir ekki brúna beddans, rauða koddans og mín. En eftir þetta komu ár þar sem okkar samskipti minnkuðu. Þið Béa áttuð litla Agötu með bollukinnar en ég var upptekin við að vera unglingur. Í raun liðu mörg ár þar til að við tókum upp samskipti sem fullorðnir einstaklingar og var ekki fyrr en árið 2000 þegar Stella fæddist. Þú áttir þínar ævintýraprinsessur í Frakklandi og ég eignaðist mínar hér á Íslandi. Og við áttum að eiga eftir nægan tíma til að tala um þær.

Við áttum jafnan samtöl í síma og gerðum ekki svo góðlátlegt grín að kvenpeningi ættarinnar og þeirra einstöku eiginleika að tala út í eitt. Börnin okkar og makar voru líka umræðuefni og allt þetta klassíska sem gamalt fólk talar um. Við vorum samt ekki komin að gigtinni, því miður.

Það var mystical að eiga svona góðan frænda eins og þig. Dálítið eins og að eiga stóra bróður sem þú býrð ekki með, en ert samt oft hjá. Í baksýnisspeglinum var okkar samband dálítið eins og systkinasamband okkar Steina bróður.

Ég verð ávallt fjölskylda stelpnanna þinna, Béa, Agötu og Stellu. Mikið vildi ég óska að þú gætir verið þátttakandi í vegferðinni næstu árin, lífið var bara betra með þér.

Á svona stundu eru orð ekki aðeins fátækleg, þau eru blásnauð þegar samræðum er lokið. Mikið vildi ég óska þess að við gætum átt fleiri.

Vertu sæll elsku Egill


Þín,

Perla.