Hopp Reykjavík hefur unnið að því að setja upp ný rafskútustæði, svokölluð HoppSpot, víðs vegar um höfuðborgarsvæðið, en verkefnið með þessu sniði hófst formlega í sumar. „Við erum að búa til skipulögð svæði þar sem við veitum afslátt af…
— Morgunblaðið/Árni Sæberg

Hopp Reykjavík hefur unnið að því að setja upp ný rafskútustæði, svokölluð HoppSpot, víðs vegar um höfuðborgarsvæðið, en verkefnið með þessu sniði hófst formlega í sumar.

„Við erum að búa til skipulögð svæði þar sem við veitum afslátt af hoppferð og með þessu erum við að gefa rafskútunni pláss og vísa hvar á að leggja henni,“ segir Sæunn Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopps Reykjavík. „Við erum núna að kynna þetta og ef notendur leggja innan þessa skilgreinda svæðis fá þeir afslátt af ferðinni.“

Að sögn Sæunnar nota nú yfir níu þúsund manns rafskútur á einum degi þegar best viðrar. Með fjölgun notenda verði æ brýnna að stýra því hvernig og hvar rafskútunum er lagt.

„Við höfum beðið eftir því að sveitarfélögin taki meira við sér og byrji að merkja fyrir rafskútur eins og almennt fyrir hjól, í rauninni ættum við að geta verið með merkingar við hliðina á öllum hjólastöndum en við höfum aldrei fengið slíkt,“ segir Sæunn.

...