Birgir Örn Steinarsson
Birgir Örn Steinarsson

Birgir Örn Steinarsson, eða Biggi Maus, heldur tónleika með sveit sinni Memm á vegum Afturámóti í Háskólabíói annað kvöld kl. 20. „Hann er þekktastur fyrir störf sín með hljómsveitinni Maus en hefur nú ýtt sólóferli sínum aftur úr hlaði,“ segir í viðburðarkynningu. Þar er bent á að hann hafi nýverið sent frá sér breiðskífuna Litli dauði / Stóri hvellur við góðar undirtektir. „Í kjölfar útgáfunnar hefur Biggi raðað í kringum sig nýrri tónleikasveit sem hann kallar Memm. Þeir stefna á tónleika víða um land í haust og vetur. Tónleikarnir í Háskólabíó verða þeir fyrstu með nýju sveitinni. Leikin verða lög af nýju plötunni í bland við vel valin og þekktustu lög Bigga af 30 ára ferli hans.“ Sveitina skipa Hallgrímur Jónas Ómarsson á gítar, Stefán Gunnarsson á bassa, Valgarður Óli Ómarsson á trommur og Þorsteinn Kári Guðmundsson á hljómborð og gítar. Auk þess koma fram á tónleikunum Drengurinn Fengurinn, Rósa Ómars og Steini Bendix.

...