Bjarni Snæbjörnsson fæddist 4. febrúar 1941 í Geitdal í Skriðdal. Hann lést á sjúkrahúsinu í Neskaupstað 29. júlí 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Snæbjörn Jónsson frá Vaði, f. 16. september 1902, d. 13. maí 1972, og Gróa Kristrún Jónsdóttir frá Litla-Sandfelli, f. 31. ágúst 1905, d. 24. janúar 1997. Bræður hans eru Jón, f. 6. október 1939, fyrrverandi framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Austurlands, og Einar Arnþór, f. 31. mars 1942, d. 10. júlí 2016. Fósturbróðir þeirra var Kjartan Runólfsson, f. 31. mars 1932, d. 21. september 2022.

Sambýliskona Bjarna var Sigríður Fanney Matthíasdóttir, f. 22. mars 1942, þau slitu samvistum árið 2007. Fósturdætur Bjarna eru Kristín Helga, f. 1966, Steinunn Ingibjörg, f. 1967, og Þorbjörg Ósk, f. 1969.

Bjarni bjó alla sína ævi í Geitdal ásamt Einari bróður sínum. Bjarni gekk í Bændaskólann á Hvanneyri á árunum 1959-1961 og þeir bræður tóku við búi foreldra sinna.

Útför Bjarna fer fram frá Þingmúlakirkju í dag, 10. ágúst 2024, klukkan 16.

Elsku pabbi, með þessum fáu orðum viljum við kveðja þig.

Það er skrítið að eiga aldrei eftir að hringja í þig eða heimsækja. En við höfum minninguna og hún er varðveitt í hjörtum okkar og hverfur aldrei.

Við Steinunn og Þorbjörg komum í Geitdal með móður okkar þann 1. september 1973, þá 6 og 4 ára gamlar en Kristín var hjá föðurömmu og afa í Reykjavík á veturna en á sumrin í Geitdal. Þarna sáum við þig fyrst og hændumst strax að þér. Við vorum alltaf að sniglast í kringum þig í þeirri von að geta hjálpað. Fyrstu verkefnin okkar voru að rétta þér lömbin þegar þú varst að marka. Haustið 1974 gafstu okkur systrum fyrstu kindurnar, þær hétu Snót, Brekka og Dúkka. Við fengum að setja á gimbrar undan okkar kindum og smátt og smátt stækkaði kindahópurinn sem við áttum.

Þegar þú varst spurður á förnum vegi hvort þú ættir þessar þrjár stelpur var svarið já að nafninu til og það leyndi sér ekki hvað þú varst stoltur.

Það var gæfa að fá að alast upp í sveit og kynnast sveitastörfum. Við systur höfðum ýmis hlutverk og skyldur eins og að sækja og reka kýrnar, moka flórinn, gefa heimalningum og taka þátt í heyskap. Í minningunni fengum við samt mest að leika okkur og eigum ógleymanlegar minningar af mörgum skemmtilegum uppátækjum.

Þið bræður skiptuð á milli ykkar bústörfunum. Þú sást yfirleitt um kindurnar og Einar um kýrnar. Allar kindurnar báru nöfn og þú þekktir þær allar með tölu (um 400 kindur). Einnig voru kýrnar nefndar með nöfnum og hét ein þeirra Óskírð. Það festist við hana þar sem ekki var búið að finna nafn á hana.

Skemmtilegustu tímarnir í sveitinni voru þegar var sauðburður, heyskapur og smalamennska. Þá voru alltaf næg verkefni. Þú kenndir Steinunni að keyra traktor þegar hún var 9 ára og fékk hún það verkefni að snúa í og raka saman. Við hinar fengum það hlutverk að stafla böggum.

Einn snjóþungan vetur þegar ganga þurfti í fjárhúsin inn frá, gekkst þú á undan og minnkaðir skrefin svo við systur gætum stigið í sporin þín. Tvisvar fórstu með okkur á snjósleða yfir Hallormstaðarhálsinn til að koma okkur í skólann. Önnur leið var ófær.

Á hverju vori eftir að við vorum fluttar að heiman og komnar með fjölskyldur komum við austur í sauðburð. Að sjálfsögðu tókum við strákana okkar með og voru það forréttindi að geta leyft þeim að kynnast sveitinni okkar. Þeir fengu einnig kindur að gjöf frá afa og á hverju hausti fengu þeir peningaupphæð sem samsvaraði tveimur lömbum.

Við gleymum því ekki þegar við komum vorið 2013 til að vera við sauðburð og sáum hvað fóturinn þinn var illa farinn. Þorbjörg keyrði þig til Akureyrar til læknis og ári seinna komstu heim af spítalanum. Það var erfiður tími. En þú kunnir ekki illa við þig á spítalanum, þar var einstakt starfsfólk og góður félagsskapur. Ein jólin lástu inni á spítala með covid. Við fundum til með þér en þér fannst það alls ekki slæmt enda vel hugsað um þig.

Það var áfall þegar á endanum þurfti að taka fótinn, sérstaklega þar sem þú þurftir alltaf að nota hækjur eftir það, þó þú værir með gervifót. Síðustu árin sem bóndi varstu farin að fækka fénu og kýrnar voru farnar. Eftir að Einar bróðir þinn lést árið 2016 var ekkert annað í stöðunni en að bregða búi.

Þú varst heimakær og erfitt að lokka þig suður nema ef þú áttir erindi. Þó tókst okkur systrum að fá þig suður síðustu jól og erum við þakklátar fyrir þær stundir með þér.

Þú gekkst okkur systrum í föðurstað. Þú varst einstaklega ljúfur, traustur og góður maður og aldrei heyrðum við þig hallmæla nokkurri manneskju, það var ekki í þínu eðli. Þú gerðir allt fyrir okkur og varst okkur mikil fyrirmynd með þínu einstaklega góða lundarfari.

Þessi síðasta spítala dvöl átti að vera stutt en sama dag og þú varst að gera þig kláran fyrir heimferð kom kallið.

Með ást, virðingu og hlýju kveðjum við þig elsku pabbi og trúum því að þú sért komin á betri stað þar sem þú getur svifið um laus við hækjur og hjólastól.


Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.

(Valdimar Briem)


Minning þín er ljós í lífi okkar


Kristín Helga Pétursdóttir Steinunn Ingibjörg Pétursdóttir Þorbjörg Ósk Pétursdóttir.