Hörður Jón Fossberg Pétursson, húsgagnabólstrari og kaupmaður, lést á Landspítalanum í Fossvogi 10. ágúst sl., 93 ára að aldri. Hörður fæddist 7. mars 1931 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Sveinbjörg Sigfúsdóttir og Pétur Hoffmann Salómonsson, að…

Hörður Jón Fossberg Pétursson, húsgagnabólstrari og kaupmaður, lést á Landspítalanum í Fossvogi 10. ágúst sl., 93 ára að aldri.

Hörður fæddist 7. mars 1931 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Sveinbjörg Sigfúsdóttir og Pétur Hoffmann Salómonsson, að því er talið var, allt þar til Hörður leitaði uppruna síns fyrir nokkrum árum. Með faðernisprófi árið 2019 fékkst loks staðfest að faðir Harðar var Gunnlaugur Jón Fossberg. Frá þessu greindi Hörður í ítarlegu viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 17. apríl 2021.

Hörður ólst upp í Austurbænum og gekk í Austurbæjarskólann. Hann vann ýmis störf frá unga aldri en lærði síðan húsgagnabólstrun. Fyrst var hann hjá Kristjáni Tromberg en lauk samningi hjá Bólsturgerð Ingimars Jónssonar í Brautarholti 22, undir leiðsögn fagmeistarans Kristjáns Sigurjónssonar. Lauk Hörður náminu 1955 og hafði þá tekið tvö ár í Iðnskólanum.

...