Píanóleikarinn og tónskáldið Romain Collin heldur tónleika í tveimur þáttum í Gamla bíói í kvöld, 15. ágúst, kl. 20. Fyrir hlé leikur hann með söngvaranum og lagahöfundinum S. Carey, sem ferðast líka um heiminn sem trommari og er einn af stofnmeðlimum hljómsveitarinnar Bon Iver. Eftir hlé kynnir Rom­ain rafhljómsveit sína FOSS, verkefni sem hann skapaði í einangrun á Íslandi í heimsfaraldrinum.

Romain heldur til í New York og hefur í tvígang verið tilnefndur til Grammy-verðlauna, að því er segir í tilkynningu. Hann hefur komið til Íslands ítrekað síðan 2019 og haldið þrjár tónleikaraðir í Hannesarholti og í Vík í Mýrdal.