4. sæti Leikmenn U18-ára landsliðsins fagna sigri gegn Noregi í lokaleik milliriðils 2 á Evrópumótinu í Podgorica í Svartfjallalandi á fimmtudaginn.
4. sæti Leikmenn U18-ára landsliðsins fagna sigri gegn Noregi í lokaleik milliriðils 2 á Evrópumótinu í Podgorica í Svartfjallalandi á fimmtudaginn. — Ljósmynd/HSÍ

Harri Halldórsson var markahæstur hjá íslenska U18-ára landsliði karla í handknattleik þegar liðið tapaði eftir framlengingu gegn Ungverjalandi í leiknum um bronsverðlaunin á EM U18 ára í Podgorica í Svartfjallalandi í gær. Leiknum lauk með naumum sigri Ungverjalands, 36:34, en Harri gerði sér lítið fyrir og skoraði átta mörk í leiknum.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og var staðan 16:15, Íslandi í vil, í hálfleik. Ísland leiddi með fjórum mörkum, 31:27, þegar tæplega sex mínútur voru til leiksloka en þá kom frábær kafli hjá ungverska liðinu sem tókst að jafna metin í 32:32. Ungverjar voru svo sterkari í framlengingunni. Ágúst Guðmundsson og Jens Bragi Bergþórsson skoruðu sex mörk hvor fyrir Ísland sem hafnaði í fjórða sæti á mótinu.