Jónas A. Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður lést föstudaginn 16. ágúst sl. níræður að aldri. Hann var fæddur 25. maí 1934 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Elísabet María Jónasdóttir húsmæðrakennari, f. 21. júlí 1893, d. 15. apríl 1978, og Aðalsteinn Pálsson, skipstjóri og útgerðarmaður, f. 3. júlí 1891, d. 11. janúar 1956.

Jónas lauk stúdentsprófi frá MA árið 1955 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1962. Hann fékk málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 1963 og fyrir Hæstarétti árið 1968.

Jónas starfaði eftir útskrift í skamma hríð sem fulltrúi hjá yfirborgardómaranum í Reykjavík og síðan sem lögfræðingur hjá Seðlabanka Íslands 1964-1965. Árið 1965 stofnaði Jónas ásamt öðrum lögmannsstofu sem fékk síðar heitið LEX árið 1987. Jónas var formaður stjórnar LEX 1997-2004. Jónas starfaði sem lögmaður allt til dánardags.

...