Hagsmuna Reykvíkinga hefur ekki verið gætt nægjanlega vel við uppfærslu samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, að mati Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem segir að þeir greiði mest til sáttmálans.

Þar vísar hann til Keldnalandsins sem er í eigu ríkisins og verðmetið á 50 milljarða króna. Á Keldnalandi eru uppi áform um þétta íbúðabyggð sem hann segir að verði ekki í neinu samræmi við þá byggð sem fyrir er í Grafarvogi. Ætlunin sé að nær tvöfalda íbúafjölda hverfisins með byggð á þeim skika, en þar sé fjölbreytt lífríki, viðkvæm græn svæði og menningarminjar að finna.

Hann gagnrýnir einnig áform um að borgarlínu sé ætlað að fara um Gullinbrú sem hann óttast að leiði til þess að almennri umferð verði ætluð ein akrein í hvora átt til að rýma fyrir borgarlínunni.

...