Stórfjölskyldan Börnin og barnabörnin samankomin á heimili Ragnars.
Stórfjölskyldan Börnin og barnabörnin samankomin á heimili Ragnars.

Ragnar Guðbjörn Dagbjartur Hermannsson fæddist 26. ágúst 1949 í Reykjavík. „Þannig var ég skírður en þar sem tölvur hjá Hagstofunni gátu ekki tekið svo marga stafi var ég beðinn að heita Ragnar G.D. Hermannsson. Ég ólst upp á Vesturgötu, vestast í Vesturbænum, því voru Grandinn og Örfirisey leiksvæði mitt og bátarnir við gamla Kaffivagninn.

Sem barn fór ég með móður minni vestur í Búðardal og þaðan á Goddastaði. Þar bjó Þórður sem var bróðir mömmu og Fanney kona hans, þar var ég í sveit mörg sumur og kynntist frændfólki mínu á öðrum bæjum í Laxárdal og víðar. Ég fór í Gillastaðarétt mörg ár eftir sveitadvölina.“

Ragnar gekk í Melaskóla og gamla Stýrimannaskólann, sem var barnaskóli. Hann fór síðan í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar, eða Gaggó Vest. Hann stundaði einnig nám við Tónlistarskóla Emils og Sigursveins D. Kristinssonar 1963-1965.

...