Hádegistónleikar undir yfirskriftinni Sumarsól verða haldnir í Seltjarnarneskirkju á morgun, 27. ágúst, kl. 12. Á tónleikunum verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá og sungið um sólina, ástina og sjóinn, að því er fram kemur í tilkynningu. Á dagskránni eru meðal annars dúettinn Ó, blessuð vertu sumarsól í fallegri útsetningu Jónasar Ingimundarsonar, Blómadúettinn úr Lakmé og grípandi sönglög eftir Jón Múla, Fauré, Reynaldo Hahn, Édith Piaf, Kurt Weill og Pál Ísólfsson. Fram koma Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzósópran, Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari og Matthías Stefánsson fiðluleikari.