— Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson

Alls 7.800 fermetrar voru undir í framkvæmdum á hafnarsvæðinu á Ísafirði í síðustu viku. Malbik var lagt á rútusvæði, bílastæði og á athafnasvæði við lengdan viðlegukant. Aðstöðuna þurfti að bæta vegna þjónustu við skemmtiferðaskip, en alls 180 slík koma til Ísafjarðar í ár. Samanlagður fjöldi farþega þeirra verður liðlega 200 þúsund.

„Núna eru rúturnar á gámaplani og verið er að gera aðstöðuna betri og aðskilja gangandi umferð betur frá vinnusvæði,“ segir Hilmar Lyngmo hafnarstjóri í samtali við Morgunblaðið. „Næsta mál er svo að bæta aðstöðu fyrir farþega af skipunum, sem fara hér gangandi frá höfninni inn í bæ. Það er verkefni næsta árs og eins að byggja þjónustuhús fyrir farþegana. Skemmtiferðaskipin og komur þeirra skipta Ísafjarðarhöfn miklu máli og standa orðið að verulegum hluta undir tekjum hafnarsjóðs.“