70 ára Kristján fæddist 27. ágúst 1954 í Reykjavík, sonur Gunnars Eggertssonar stórkaupmanns og konu hans Báru Vilborgar Jóhannsdóttur. Kristján ólst upp í Vesturbænum, gekk í Melaskóla, Hagaskóla og Eiðaskóla og lauk stúdentsprófi frá Ármúlaskóla 1981. Kristján hóf störf hjá Gunnari Eggertssyni hf. 1984, tók fullan eignarétt á því 1992 og hefur rekið það síðan. Fyrirtækið þjónustar íslensk iðnfyrirtæki, svo sem prentiðnað, sælgætisgerðir, ísgerðir og annan matvælaiðnað, með hráefni. Auk þess þjónustar fyrirtækið skiltagerðir.

Kristján kynntist konu sinni, Gry Ek, í Lýðháskólanum í Skálholti 1975. Þau gengu í hjónaband 1978 og eiga fjögur börn og sex barnabörn.

Kristján fagnar þessum tímamótum á ferðalagi í Noregi.