„Þetta kostar, en það er þannig með alla þjónustu sem þú vilt veita að hún kostar.“
Friðrik hittir meginþorra gesta Hótel Rangár meðan á dvöl þeirra stendur.
Friðrik hittir meginþorra gesta Hótel Rangár meðan á dvöl þeirra stendur. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve

Það er ljóst að blaðamenn eru að trufla vinnandi mann þegar þeir mæta um miðjan dag á Hótel Rangá til að taka hús á Friðrik Pálssyni, eiganda hótelsins, fyrir hringferð Morgunblaðsins sem farin er í tilefni af 110 ára starfsafmæli blaðsins. Flestir gestir hótelsins eru einhvers staðar á ferðinni en á meðan er verið að undirbúa veitingastað hótelsins fyrir kvöldið auk þess sem hópur Íslendinga hefur boðað komu sína til að halda vinnufund á hótelinu.

Friðrik gefur sér þó tíma til að setjast niður og tekur fram að hann hafi allt frá barnæsku, hvar hann ólst upp á Bjargi í Miðfirði, haft gaman að því að taka á móti gestum. Þeir sem þekkja til Friðriks og hafa vanið komur sínar á Hótel Rangá þekkja þó að hann er þar yfirleitt að stússast og líklega má segja að hann hitti á einhverjum tímapunkti nær alla gesti hótelsins.

...