Umbra Lilja Dögg, Guðbjörg Hlín, Arngerður María og Alexandra Kjeld.
Umbra Lilja Dögg, Guðbjörg Hlín, Arngerður María og Alexandra Kjeld.

Umbra fagnar 10 ára starfs­afmæli með tónleikum sem bera yfirskriftina „Ómur aldanna“ í Norðurljósum Hörpu á morgun, sunnudag, kl. 16, en tónleik­arnir eru hluti af tónleikaröðinni ­Sígildir sunnudagar.

„Tónlist fyrri alda verður í algleymingi í einstökum útsetningum bandsins sem allt frá fyrstu tíð hefur lagt áherslu á að skapa sinn eigin hljóðheim óhindrað og af einlægni. Tónleikagestir verða leiddir í gegnum ferðalag þar sem mætast pílagrímar og farandsveinar, drykkju- og maríu­söngvar, kóngafólk og ­heimasætur. Enn fremur verður flutt glæný tónlist sem hljómsveitin vinnur nú að út frá fornum erindum Völuspár,“ segir í tilkynningu.

Umbru skipa þær Arngerður María Árnadóttir, Alexandra Kjeld, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir og Lilja Dögg Gunnarsdóttir. Þær verða á faraldsfæti í haust og vetur, en Umbra er á leið í tónleikaferðalag til Kína, Frakklands, Indlands og Þýskalands.