Húsavík Höfuðstaður í héraði.
Húsavík Höfuðstaður í héraði.

Vöruverð og -úrval eru þeir þættir í búsetuskilyrðum sem íbúar í Þingeyjarsýslum eru hvað helst ósáttir við. Þetta kemur fram í nýrri könnun meðal fólks í byggðum landsins sem gerð var á síðasta ári. Íbúakönnun landshlutanna 2023 heitir plagg sem fyrir liggur og var kynnt í sveitarstjórn Norðurþings í síðustu viku.

Umferð, heilsugæsla, friðsæld og innflytjendamál voru einna mest áberandi meðal þeirra þátta sem eru betri í Þingeyjarsýslum en á höfuðborgarsvæðinu, að mati íbúa. Almenningssamgöngur eru sá þáttur sem var hvað verstur í samanburði við Reykjavík og nágrannabyggðir. Þó leggja Þingeyingar ekki mikið upp úr þeim málum. Nyrðra er fólk jafnframt nokkuð sátt við hvernig sorp-, umhverfis- og skipulagsmálum er háttað.

Eyjafjörður kom best út úr þessari könnun, Skagafjarðarsýsla var í öðru sæti og Akureyri, Strandir og Reykhólasveit, Skaftafellssýslur og Austur-Húnavatnssýsla komu verst út úr könnuninni.