„Vinkonur mínar lugu að mér um alls kyns verkefni og fóru svo bara saman í bæinn – án mín,“ segir Caroline Khouri, 12 ára gömul stúlka í Danmörku og ein margra í sínum aldurshópi sem fengið hafa að finna fyrir makt myrkranna í staðsetningarmöguleika samfélagsmiðilsins Snapchat.

Með honum má nefnilega sjá hvar vinirnir eru staddir. Stafrænt og sniðugt? Ekki fyrir alla að mati geðfróðra í Danaveldi. „Snapchat getur verið þungt þar sem þú sérð alltaf hvar vinir þínir eru og stundum er þér bara ekki boðið,“ segir Kathrine Elmose, sérfræðingur í stafrænni miðlun hjá stuðningssamtökunum Børns Vilkår. Samkvæmt nýlegri könnun Epinion upplifir eitt af þremur 9 til 14 ára börnum sig út undan vegna upplýsinga frá Snapchat.