Bella Nilsson
Bella Nilsson

Réttarhöld hófust í gær í Stokkhólmi í máli ellefu manns, sem sakaðir eru um að hafa losað um 200.000 tonn af eitruðum úrgangi á ólöglegan hátt. Er þetta stærsta umhverfisglæpamál Svíþjóðar til þessa.

Meðal sakborninga er Bella Nilsson, fyrrverandi fatafella sem varð síðar framkvæmdastjóri sorphirðufyrirtækisins Think Pink, en hún kallaði sig eitt sinn „rusldrottninguna“ í viðtali. Hún hefur neitað allri sök, en fyrrverandi eiginmaður hennar og stofnandi fyrirtækisins, Thomas Nilsson, er einnig meðal ákærðra. Áætlað er að réttarhöldin muni vara fram í maí á næsta ári.

Saksóknarar segja að fyrirtækið hafi safnað sorpi án þess að hafa vilja eða getu til þess að losa það á löglegan hátt. Hafi fyrirtækið tekið við öllu frá byggingarefni yfir í raftæki, málma, plast, við, bíldekk og leikföng, og ekki haft fyrir því að flokka úrganginn á nokkurn hátt.