Ísafjörður Skútan Lísa var ekki eina skútan sem strandaði í vonskuveðrinu á Vestfjörðum í gær en Veðurstofan varaði við vindhviðum allt að 45 m/s.
Ísafjörður Skútan Lísa var ekki eina skútan sem strandaði í vonskuveðrinu á Vestfjörðum í gær en Veðurstofan varaði við vindhviðum allt að 45 m/s. — Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson

Vonskuveður var víða á landinu í gær, sér í lagi á Vestfjörðum.

Varðskipið Þór var kallað út til aðstoðar á Hornströndum vegna óljósra neyðarboða sem bárust frá Hlöðuvík. Skipið kom í Hlöðuvík um áttaleytið í gærvöldi. Þrír ferðamenn höfðu kallað eftir hjálp en seint í gærkvöldi fengust þær upplýsingar að fólkið væri heilt á húfi.

Þá losnuðu tvær skútur frá bryggju við Ísafjörð og rak upp í fjöru. Veðurstofa Íslands hafði gefið út gula viðvörun fyrir svæðið líkt og fyrir stóran hluta landsins en seinni partinn var hún uppfærð í appelsínugula. Í samtali við Morgunblaðið segir bæjarstjóri Ísafjarðar, Arna Lára Jónsdóttir, að veðrið hafi verið sérlega vont miðað við árstíma og það hafi komið íbúum nokkuð á óvart.

Veðrið lét sömuleiðis fyrir sér finna í öðrum landshlutum en björgunarsveitir voru kallaðar út vegna göngumans í ógöngum á Suðausturlandi.