— Ljósmynd/Sigurður Erik

Heimildarmyndin um pönksveitina Purrk Pillnikk: Sofandi, vakandi, lifandi, dauður, var sýnd á Skjaldborgarhátíðinni á Patreksfirði í vor við afar góðar undirtektir. Hinn 11. september verður hátíðarfrumsýning myndarinnar í Bíó Paradís en myndin verður sýnd þar út september. Blaðamaður spjallaði við þá Kolbein og Tómas um gerð myndarinnar, pönkið og Purrk Pillnikk.

„Eitt komment fannst mér skemmtilegt, þegar áhorfandi sagði að honum þætti gaman hvað tónlistin fær að lifa í myndinni,“ segir Tómas þegar blaðamaður falast eftir hver viðbrögð áhorfenda við myndinni voru á Skjaldborgarhátíðinni.

Þeir eru sammála um að upplifunin hafi verið góð og mikið hlegið. Það sé mikill munur að njóta myndarinnar í troðfullum bíósal eftir að hafa verið að klippa hana í gluggalausri kjallaraholu síðasta vetur.

...