Fjölskylda Tónlistarmaðurinn Victor Urbancic með börn sín, Ruth og Pétur, í Reykjavík á stríðsárunum.
Fjölskylda Tónlistarmaðurinn Victor Urbancic með börn sín, Ruth og Pétur, í Reykjavík á stríðsárunum.

Þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands og Þjóðleikhúsið tóku til starfa vorið 1950 bundu menn vonir við það að veruleg samlegðaráhrif gætu orðið af starfsemi þeirra. Í leikhúsinu yrðu færðar upp óperur og söngleikir, auk þess sem hefðbundin leikrit kölluðu stundum á tónlist. Þetta var meðal röksemda sem uppi voru við stofnun Sinfóníuhljómsveitarinnar enda var sjálfstætt tónleikahald hennar ekki ýkja umfangsmikið fyrstu árin og rekstrargrundvöllur tæpur. Með því að sveitin léki bæði á eigin tónleikum og sýningum í leikhúsi var kleift að fastráða til hennar hljóðfæraleikara, sem þá var algjört nýmæli á Íslandi. Það varð síðan til að styrkja tengsl þessara stofnana að Þjóðleikhúsið var helsti tónleikastaður sveitarinnar allt þar til Háskólabíó var tekið í notkun rúmum áratug síðar. Ljóst var líka að leikhúsið yrði að einhverju leyti starfsvettvangur Victors Urbancic sem stjórnaði tónlistinni við sjálfa vígslusýningu þess, Nýársnóttina.

...