Læknar í Kenía greindu frá því í gær að Dickson Ndiema Marangach, sem réðst á ólympíufarann Rebeccu Cheptegei í upphafi mánaðarins og brenndi til bana, hefði sjálfur dáið af þeim brunasárum sem hann hlaut við árásina á Cheptegei.

Andlát Cheptegei, sem var frá Úganda, olli mikilli reiði og hneykslun víða um veröld, en hún keppti í maraþonhlaupi kvenna á Ólympíuleikunum í París fyrr í sumar. Faðir Cheptegei sagði í gær að fjölskyldan liti svo á að réttlætinu hefði verið fullnægt með andláti Dicksons.