— AFP/Huu Hao

Mikil flóð hafa herjað á norðurhluta Víetnam eftir að fellibylurinn Yagi gekk þar á land á laugardaginn. Að minnsta kosti 82 eru látnir af völdum náttúruhamfaranna og 64 er saknað.

Yfirvöld í Yen Bai-héraði sögðu í gær að um 59.000 manns hefðu þurft að flýja heimili sín vegna flóðanna. Þá er áætlað að um 18.000 heimili hafi orðið fyrir flóðunum.

Höfuðborgin Hanoi hefur orðið illa úti í flóðunum, og eru þetta mestu flóð í borginni frá árinu 2008. Hafa veðurfræðingar varað við því að enn sjái ekki fyrir endann á úrhellinu í höfuðborginni. Vindhraðinn náði um 41 metra á sekúndu þegar mest lét um helgina, og sögðu borgaryfirvöld í Hanoi að rúmlega 25.000 tré hefðu rifnað upp með rótum í látunum.