Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar enn karlmanns sem áreitti börn eftir skólatíma í Fossvogsdal í Reykjavík. Var það m.a. skólastjóri Fossvogsskóla sem gerði lögreglunni viðvart um þessa hegðun mannsins.

Í bréfi sem skólastjórinn sendi foreldrum og foráðamönnum barnanna segir að borist hafi ábendingar um að í Fossvogsdal sé maður sem hafi verið að elta börn eftir skólatíma. Hann hafi verið við hoppubelginn við skólann. Lýsingin á manninum er að hann sé snoðklipptur, reyki og tali enga íslensku. Þá er hann sagður hafa verið á gulu og svörtu hlaupahjóli.

Lögreglan hefur viðhaft eftirlit á svæðinu að undanförnu og mun halda áfram að vakta Fossvoginn næstu daga.