— Morgunblaðið/Ásdís

Bassaleikarinn Jakob Smári Magnússon tekur á móti blaðamanni í húsnæði Rauða krossins þar sem hann er yfir verkefni sem stuðlar að því að koma föngum aftur út í lífið eftir afplánun. Við röltum saman yfir á kaffihús í grenndinni þar sem hægt er að ræða lífið og listina yfir kaffibolla. Á tímamótum, nú þegar hann fyllir sextíu ár, finnst Jakobi gott að staldra við og horfa yfir farinn veg, þakka fyrir það góða og gefa eitthvað til baka.

Sveitaböll og bóhemlíf

Bassinn hefur fylgt Jakobi allt frá unglingsárum, en fyrsta bassann keypti hann 1979.

„Ég ætlaði alltaf að verða tónlistarmaður og sagði mömmu þegar ég var sex ára að ég ætlaði að verða Paul McCartney þegar ég yrði stór. Það gerðist nú ekki en ég fór að spila á bassa eins og hann,“ segir Jakob og brosir.

...