Þeir sem vilja sífellt aukin ríkisútgjöld verða seint sáttir

Tveir áratugir eru liðnir frá því að sérstakur auðlindaskattur, kallaður veiðigjald, var lagður á íslenskan sjávarútveg, auk allra annarra skatta sem sjávarútvegurinn, líkt og aðrar greinar, greiðir til hins opinbera.

Þessi skattur var tekinn upp í framhaldi af mikilli umræðu í þjóðfélaginu eftir að vel hafði tekist til við það um tveimur áratugum fyrr að taka upp aflamarkskerfi í sjávarútvegi, sem byggðist á framseljanlegum og varanlegum aflaheimildum. Þetta stjórnkerfi hefur verið í fremstu röð í heiminum og orðið til þess að hér hafa skapast forsendur fyrir að ræða hvað skuli gera við hagnað greinarinnar. Í þeirri umræðu gleymist iðulega að sá „vandi“ er ekki fyrir hendi víða, enda nýtur sjávarútvegur gjarnan opinbers stuðnings í öðrum löndum og þarf okkar sjávarútvegur, með sérstökum viðbótarskatti, að keppa við þá ríkisstuddu starfsemi.

...