Skipulagsstofnun hefur efasemdir um að fullbúin rafeldsneytisverksmiðja Qair á Íslandi ehf., sem er fyrirhugðuð á Grundartanga, geti risið á þeim hraða sem Qair áformar. Til þess sé starfsemin háð of mörgum utanaðkomandi framkvæmdum svo tímasetningar gangi eftir. Fullbyggð kemur verksmiðjan til með að verða langstærsti orkunotandinn á Íslandi.

Þetta kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar um umhverfismatsskýrslu Qair um framleiðslu rafeldsneytis á Grundartanga. Fram hefur komið að Qair er með í undirbúningi að byggja upp verksmiðju til framleiðslu á grænu eldsneyti með framleiðslu á vetni og ammoníaki. Til stendur að reisa hana í þremur áföngum, fyrsti fasi verði gangsettur árið 2028, annar fasi 2031 og þriðji fasi 2034 ef nægilegt framboð verður af raforku á samkeppnishæfu verði og uppbygging flutningsmannvirkja raforku verður í samræmi við áætlanir.

...