— Morgunblaðið/Sigurður Ægisson

Þessi laglegi og svipmikli fugl hefur síðustu fjórar vikurnar eða svo haldið til í Álftaveri og unir sér þar bersýnilega vel, þar sem hann hleypur um og tínir upp af fáförnum malarvegi skordýr og áttfætlur og annað tilfallandi góðgæti sem býðst.

Þetta er afar sjaldgæfur flækings- eða hrakningsfugl sem á íslensku nefnist stepputrítill (Glareola nordmanni). Hefur hann glatt fuglaáhugamenn sem hafa þyrpst í Álftaver með myndavélar sínar.

Fuglinn er áþekkur svartþresti að lengd, 24-28 cm, en nokkuð léttari, ekki nema 87-105 g og með töluvert meira vænghaf en sá fyrrnefndi, eða 60-68 cm, og minnir á flugi á ránfugl eða svölu.

Áður höfðu einungis þrír fuglar sömu tegundar sést á Íslandi, sá fyrsti árið 1979 á Garðskaga, næsti 1983 við Stafnes á Miðnesi og sá þriðji í Suðursveit 1987.

...