Foreldrar grunnskólabarna í Laugardal, Háaleiti og Bústaðahverfi kalla eftir því að stjórnendur Reykjavíkurborgar geri allt sem í þeirra valdi stendur til að auka velferð og öryggi barna, meðal annars með því að rýmka opnunartíma félagsmiðstöðva og sundlauga.

Þetta kemur fram í ályktun sem var samþykkt í gær á fundi Foreldraþorpsins, samráðsvettvangs stjórna foreldrafélaga níu grunnskóla.

„Við getum ekki treyst Hagkaup í Skeifunni fyrir unglingunum, það er ekki þeirra hlutverk að vera félagsmiðstöð. Þá skýtur það skökku við að nikótínbúðir hverfanna séu opnar lengur en félagsmiðstöðvarnar,“ segir m.a. í ályktuninni.